Wednesday, April 28, 2010

Um hjónaband samkynhneigðra

Inngangur

Staða samkynhneigðra hefur verið í brennidepli umræðu alllengi í vestrænu samfélagi. Einkum hefur verið tekist á um hjúskap þeirra, hvaða réttarlegu stöðu hann eigi að hafa og hvort samkynhneigðir í hjúskap skuli njóta allra sömu réttinda og gagnkynhneigt hjónafólk nýtur. En málefnið varðar líka kristinn, eða e.t.v. öllu heldur kirkjulegan, skilning á hugtökunum „hjónaband“ og „hjúskapur“.

Á Íslandi eru tvenns konar hjúskaparlög í gildi, önnur fyrir gagnkynhneigða, hin fyrir samkynhneigða. Þegar lög um staðfesta samvist samkynhneigðra voru upphaflega sett árið 1996 var samkynhneigðum pörum m.a. óheimilt að frumættleiða börn og konur í staðfestri samvist fengu ekki að gangast undir tæknifrjóvgun. Þessu var breytt árið 2006 og nú skilja engin efnisatriði þessa tvo lagabálka að – með einni undantekningu. Hún varðar aðkomu kirkjunnar. Samkynhneigð pör geta ekki fengið kirkjulega hjónavígslu né ber þeim skylda til að leita til prests eða trúarleiðtoga varðandi sáttaumleitanir við skilnað.[1] Samkynhneigðir í hjúskap geta því ekki enn kallað sig „hjón“ þótt staða þeirra sé gagnvart ríkisvaldinu að öllu leyti hin sama og gagnkynhneigðra hjóna. Kirkjan ein gerir þarna greinarmun á. Sýnir það e.t.v. meira áhrifavald kirkjunnar, en fólk gerir sér almennt grein fyrir, að í landinu skuli tveir lagabálkar gilda um algerar laga- og réttarfarslegar hliðstæður, einungis vegna tregðu hennar við að nota um þær sama orðið: Hjónaband.

Í hirðisbréfi til Þjóðkirkjunnar árið 2001 reynir biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, að gera grein fyrir þessari afstöðu kirkjunnar. Hann segir: „Staðfest samvist er skráð sambúð, en ekki hjónaband. Engin þeirra kirkna sem við erum skuldbundin samstarfi við, engin þjóðkirkna Norðurlandanna hefur treyst sér til að stíga það skref að vígja samkynhneigða sem hjón.“[2] Væru þetta frumforsendur afstöðunnar væru þær nú brostnar. Kenninganefnd sænsku þjóðkirkjunnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að viðurkenna beri að fullu hjónaband einstaklinga af sama kyni. Bæði í Noregi og Svíþjóð gilda ein hjúskaparlög fyrir alla, óháð kynhneigð, og núverandi ríkisstjórn Íslands hefur einsett sér að svo verði einnig hér á landi áður en kjörtímabili hennar lýkur. Mun Þjóðkirkjan enn streitast við að leggja þessi hjúskaparform að jöfnu? Samkvæmt Karli virðist ekki annað á döfinni:

„Hjónavígsla er annað og meira en staðfesting á ást og sambúð einstaklinga. Það á sér forsendu í gagnkvæmni kynjanna. Rökin fyrir atbeina kirkjunnar að hjónavígslu eru orð Biblíunnar að Guð skapaði manninn í sinni mynd, hann skapaði þau karl og konu og Guð blessaði þau.“[3]

Samkvæmt honum er það semsagt gagnkvæmni kynjanna sem er frumforsenda hjónabandsins. Sænska kirkjan komst að annarri niðurstöðu. Samkvæmt henni er það val einstaklinga hvors á öðrum sem lífsförunauti sem er þungamiðja hjónabandsins. Það, hvernig sambandi tveggja einstaklinga sé háttað, fari ekki eftir kynferði þeirra.[4]

Spurningin sem glíma verður við hlýtur að vera hvort forsendur biskups fyrir kirkjulegri hjónavígslu standist gagnrýna skoðun. Hér verður reynt að leita svars við þeirri spurningu í samfélagslegu og siðferðilegu ljósi með tilliti til mannréttinda, kynverundarréttinda og kristinnar hefðar.

Samkynhneigð og samfélag

Samkynhneigð er föst stærð í samfélaginu, henni verður hvorki útrýmt né ýtt til hliðar. Samkynhneigð er fólki ásköpuð. Að þvinga samkynhneigðan einstakling til að lifa sem gagnkynhneigður væri er því hreint andlegt ofbeldi, sambærilegt við það að neyða gagnkynheigðan einstakling til samkynhneigðs lífsstíls. Sambúð og samvistum samkynhneigðra verða því ekki settar neinar skorður nema með því að þverbrjóta bæði tólftu og þrettándu grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Í tólftu grein mannréttindayfirlýsingarinnar segir m.a.: „Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans...“ Í þrettándu greininni segir: „Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.“ Umræðan ætti því ekki snúast um rétt samkynhneigðra til sambúðar og samvista heldur um lagalega stöðu sambanda þeirra. Í því ljósi mætti jafnvel færa rök fyrir því að sextánda grein mannréttindayfirlýsingarinnar tryggi samkynhneigðum rétt til hjúskapar, en hún er í þrem liðum og hljóðar svo:

„1. Konum og körlum, sem hafa aldur til þess að lögum, skal heimilt að stofna til hjúskapar og fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.

2. Eigi má hjúskap binda, nema bæði hjónaefnin samþykki fúsum vilja.

3. Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.“ [5]

Þarna er ekki tilgreint að konum og körlum sé aðeins heimilt að stofna til hjúskapar við einstakling af gagnstæðu kyni. Ennfremur er fullyrt er að allir, konur og karlar – án þess að skilgreiningin á körlum og konum sé skilyrt við kynhneigð þeirra – skuli njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar.

Erfitt er að færa fyrir því nokkur haldbær rök að sambúð samkynhneigðra sé skaðleg samfélaginu. Sambönd samkynhneigðra eru ekki ein um að skila samfélaginu ekki nýjum þegnum. Barnlaus sambönd gagnkynhneigðra eru algeng og barnleysið hefur engin áhrif á réttindi hjónanna eða gildi hjónabands þeirra. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að samkynhneigð sé óheilsusamleg né að börn samkynhneigðra séu líklegri en önnur börn til að reynast samkynhneigð þegar þau vaxa úr grasi. Engar rannsóknir hafa heldur sýnt að samkynhneigðir séu verri uppalendur en gagnkynhneigðir. Reyndar bendir nýleg rannsókn við Kaupmannahafnarháskóla til hins gagnstæða. Samkvæmt henni eru bestu foreldrar ættleiddra barna lesbíur.[6]

Erfitt er því að færa fyrir því haldbær rök að samkynhneigð eða hjónaband samkynhneiðgra skaði samfélagið á nokkurn hátt. Þvert á móti ætti að vera ljóst að það væri samfélaginu mun skaðlegra að vinna gegn samvistum samkynhneigðra og koma í veg fyrir rétt þeirra til sambúðar, ekki síst með tilliti til mannréttinda.

Samkynhneigð og siðferði

Þau rök, sem einkum hafa verið notuð gegn fullri viðurkenningu á réttmæti samkynhneigðs lífstíls og tilfinninga, hafa frá alda öðli fyrst og fremst verið af siðferðilegum toga. Má rekja slíkan málflutning allt aftur til gríska heimspekingsins Platons (428/427-348/347 f.Kr.). Í Lögunum segir hann að samkynhneigð beri að banna þar sem hún sé ónáttúrleg. Það sjáist best á því að hún sé með öllu óþekkt meðal dýra.[7] Nú vitum við að þarna brestur Platon þekkingu á dýrafræði, en nýjustu rannsóknir benda einmitt til þess að samkynhneigð hegðun eigi sér stað meðal nánast allra dýrategunda, allt frá æðri spendýrum, s.s. simpönsum og höfrungum, til ávaxtaflugna.[8] Ennfremur hlýtur sú staðreynd, að samkynhneigð hafi verið svo þekkt fyrirbæri í grískum menningarheimi þegar á fimmtu öld fyrir Krist að Platon hafi séð sérstaka ástæðu til að gera hana að umfjöllunarefni, að benda til þess að hún hafi verið sýnileg í mannlegu samfélagi í a.m.k. 2500 ár.[9]

Fleiri hugsuðir hafa tekið í sama streng. Ágústínus frá Hippó (354-430) kallaði hana „öfugsnúna girnd“[10] sem bryti í bága við fyrirætlun skaparans með sköpun mannsins. Tómas frá Akvínó (1225-1274) áleit kynmök samkynhneigðra verri synd en framhjáhald, sifjaspell og nauðgun og líkti henni við morð. Þar sem slík athöfn miðaði ekki að getnaði væri hún sóun sæðis og þar með mannlegs lífs. Að hans mati var upplýst samþykki beggja þátttakenda í kynmökum því ekki eins mikilvægt og möguleikinn á getnaði. Nú á dögum hefur þessum sjónarmiðum víðast hvar verið vikið til hliðar enda brjóta þau augljóslega í bága við grundvallarmannréttindi. Þó er hið undirliggjandi viðhorf sem þau byggja á, það að samkynhneigð sé „ónáttúra“ þar sem kynmök samkynhneigðra leiði ekki til getnaðar, furðu lífseigt.

Marteinn Lúther (1483-1546) áleit samkynhneigð „öfughneigð“ frá djöflinum komna, hún væri synd af „stærðargráðu án hliðstæðu“.[11] Þetta álit setur hann fram í ritinu „The Natural Place of Women“. Þau viðhorf sem þar koma fram eru löðrandi í eðlishyggju sem flestar lútherskar kirkjur á vesturlöndum hafa fyrir löngu látið lönd og leið. Til dæmis fullyrðir hann: „... konan var sköpuð til að annast heimilishald en maðurinn fyrir stjórnmál, stríð og málefni dómstóla. Að taka sér konu er úrræði við hórdómi.“[12] Tilgangur kvenna er samkvæmt Lúther að fæða börn, þeim ber að vera hlýðnar og undirgefnar í hjónabandi. Eðli karla gerir þá hæfa til að ræða alvörumál af skynsemi en ekki „ruglingslega og afkáralega“[13] eins og konur geri.

Prestvígsla kvenna ein og sér sýnir að Þjóðkirkjan hefur algerlega varpað skoðunum Lúthers á kveneðlinu og kynhlutverki kvenna fyrir róða. Sömuleiðis er skilningur Þjóðkirkjunnar á hjónabandinu löngu hættur að rúma þessi viðhorf. Í sálgæslu, hjónabandsráðgjöf og við hjónavígslu sér þeirra engan stað. Við hjónavígslu heita bæði brúðhjón því sama; að reynast hvort öðru trú og elska og virða hvort annað í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þeim að höndum bera.[14] Kirkjan lætur verkaskiptinguna inni á heimilinu og annað sambúðarfyrirkomulag með öllu afskiptalaust. Hvergi er minnst á undirgefni eða hlýðni annars þeirra gagnvart hinu.

Erfitt er að finna tæk siðferðisrök gegn hjónabandi samkynhneigðra. Öll hvíla þau á heimsmynd og mannsskilningi sem hvarvetna er á undanhaldi ef ekki horfin eins og dögg fyrir sólu. Ef „óeðlilegt“ kynlíf er skilgreint sem hver sú kynlífsathöfn sem ekki leiðir að getnaði er deginum ljósara að íslenskt samfélag og kirkja hafa látið slíkt afskiptalaust og blessað áratugum ef ekki öldum saman. Þannig hefur notkun getnaðarvarna varla verið mótmælt svo nokkru nemi hérlendis. Óbyrjur, ófrjóir karlar og konur komnar úr barneign fá kristna hjónavígslu um allan heim án þess að grennslast sé fyrir um líffræðilega möguleika þeirra til undaneldis.

Þau rök að við samlíf þeirra sé þó alltjent gagnkvæmni kynjanna til staðar standast líka illa gagnrýni. Þannig er það deginum ljósara, einfaldlega út frá líffræði mannsins, að tveim einstaklingum af sama kyni er ómögulegt að stunda nokkuð það í samlífi sínu eða kynlífsathöfnum sem gagnkynhneigðir einstaklingar geta ekki líka gert – og gera sjálfum sér og rekkjunauti sínum til ánægju og yndisauka – án þess að kirkjan hafi haft fyrir því að koma sér upp skoðun á réttmæti eða siðferði þess. Þvert á móti hefur kirkjan lagt á það áherslu að kristið hjónaband sé sáttmáli um „ævarandi tryggð, ást og virðingu.“ Hjónin heita hvort örðu „ævitryggðum, að eiga saman gleði lífsins og sorg, önn og yndi daganna.“[15] Ást hjóna er eins og neisti af kærleika Guðs.[16] „Ást þeirra tveggja sem leggja líf sitt í hvors annars [sic] hendur í skilyrðislausri tryggð og kærleika, er ætlað að endurspegla kærleika Krists.“[17] Hjónavígsla er m.ö.o. ekki skuldbinding til að stunda aðeins eina tegund samfara og engar aðrar. Sé kristnum hjónabandsskilngi hér rétt lýst hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að samkynhneigð pör séu verr til þess fallin að rísa undir honum en gagnkynhneigð.

Hin himinhrópandi augljósa staðreynd er sú að samkynhneigð er hinum samkynhneigða eðlileg. Þegar til viðbótar kemur annars vegar að slíkar kenndir þekkjast meðal flestra annarra dýrategunda í Guðs góðu sköpun og hins vegar að samkynhneigð hefur verið til staðar í samfélagi manna svo lengi sem heimildir greina frá að menn hafi haft samfélög og ekki horfið þrátt fyrir fordæmingu, ofsóknir, aftökur og limlestingar þúsöldum saman, hlýtur að mega ganga út frá því að það sé óhjákvæmilegt – og þar með eðlilegur hluti Guðs litskrúðugu og fjölbreyttu sköpunar – að ákveðinn hluti mannkyns sé samkynhneigður.

Kristin hefð

Biblíuleg rök hafa verið notuð ákaft gegn hjónavígslu samkynhneigðra. Í hirðisbréfi sínu vitnar Karl Sigurbjörnsson, biskup, þannig í Fyrstu Mósebók: „Guð skapaði manninn í sinni mynd, hann skapaði þau karl og konu og Guð blessaði þau.“ Þessi tenging er að mínu mati hæpin. Þegar texinn er skoðaður kemur nefnilega skýrt í ljós að blessun Guðs var ekki fordæming á öðrum sambúðarformum heldur var hún til þess að karlinn og konan yrðu frjósöm: „Guð blessaði þau. Og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina... (1M 1.28) Í gyðinglegum hugarheimi fornaldar var blessunarskilningurinn nátengdur frjósemi, hún var tákn um velþóknun Guðs. En eins og fram hefur komið er frjósemi ekki forsenda kristins hjónabandsskilnings, a.m.k. ekki kristinnar hjónavígslu. Meint gagnkvæmni kynjanna sem einhvers konar „tákn“ um frjósemi – sem þó þarf ekki að vera til staðar – getur því varla legið henni til grundvallar né verið forsenda kristins blessunarskilnings..

Óþarfi ætti að vera að fara mörgum orðum um þá ritningarstaði Gamla testamentisins þar sem samfarir tveggja karla eru fordæmdar. Í lögmálinu segir t.a.m. „Þú mátt ekki liggja með karlmanni eins og legið er með konu, það er viðurstyggð.“ (3M 18:22) Þrem versum fyrr segir: „Þú mátt ekki nálgast konu, sem er óhrein af tíðum sínum, til að bera blygðun hennar.“ (3M 18.19) Annars staðar segir: „Leggist karlmaður með karlmanni eins og þegar lagst er með konu fremja þeir báðir viðurstyggilegt athæfi. Þeir skulu báðir líflátnir. Blóðsök þeirra skal koma yfir þá.“ (3M 20.13) Þau ummæli eru römmuð inn, annars vegar með fyrirmælunum: „Sérhver, sem bölvar föður sínum og móður, skal líflátinn.“ (3M 20.9) Hins vegar með því að endurtaka bannið við því að lagst sé með konu sem hefur á klæðum (3M 20.18). Þeir sem beita þessum ritningarstöðum fyrir sig eru því greinilega að velja og hafna það sem þeim hentar úr safni fyrirmæla sem engum dettur lengur í hug að taka önnur ákvæði úr alvarlega.

Auk þess ber þess að geta fyrirmæli þessi eru úr lögmáli gyðinga, en kristnir menn eru ekki undir lögmáli heldur náð, eins og Páll postuli þreytist ekki á að útskýra í bréfum sínum í Nýja testamentinu. Kristnir menn hafa eitt boðorð sem felur í sér öll önnur boðorð: „Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn er fylling lögmálsins (Róm 13.9-10).

En hvernig á þá að bregðast við þessum orðum Páls postula í Rómverjabréfinu?

„Því hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn hafa framið skömm með karlmönnum og tóku svo út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ (Róm 1.26-27)

Hér mætti staldra við orðalagið „að breyta eðlilegum mökum í óeðlileg“. Páll gerir sér auðvitað ekki grein fyrir því frekar en samtímamenn hans að samkynhneigð er sumu fólki ásköpuð og því eðlileg. Það er ekki að „breyta“ neinu nema e.t.v. hegðun sem því var óeðlileg, hegðun sem því þótti ógeðfelld en stundaði tilneytt. Slíkt fólk breytir því samkvæmt gullnu reglunni, „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera“ (Mt 7.12), þegar það lætur af því að gera öðrum það sem það vill ekki í hjarta sér að gert sé við það. Jesús bætir því sjálfur við að gullna reglan inniberi allt lögmálið og spámennina.

Sömuleiðis segir Páll karla hafa „brunnið í losta“ hver til annars. „Hann beinir spjótum sínum að samböndum losta og girndar en ekki ástar og kynlífssamböndum fullveðja fólks sem er bæði sjálfráða og hefur fulla stjórn á tilfinningum sínum og lífi.“ [18] Páll er því augljóslega ekki að tala um þann neista af kærleik Guðs, sem biskup Íslands líkir ást í hjónabandi við. Engin haldbær rök eru fyrir því að sá neisti sé ósannari eða daufari í samkynhneigðum hjörtum en gagnkynhneigðum.

Niðurstaða

„... hjálpa mér að vera hreinskilinn og einlægur og öllum mönnum bróðir í leynd og reynd. Því einn hefur liðið fyrir alla, sonur þinn, Jesús Kristur, og gjörzt bróðir allra. Vor vegna allra jafnt gekk hann í dauðann, hans vegna hefur þu gjört oss að þínum börnum alla jafnt.“ [19]

Þessa fallegu bæn má finna í Sálmabók íslenzku kirkjunnar frá 1977. Hún undirstrikar að Guð fer ekki í manngreinarálit (Róm 2.11). Jesús dó fyrir okkur öll jafnt og gerði okkur að börnum Guðs, öll jafnt. Engir fyrirvarar eru gerðir. Kristur dó fyrir okkur öll jafnt – án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna, eins og segir í annarri grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Okkur ber að vera öllum mönnum bræður í leynd og reynd, öllum jafnt. Sextíu ár eru síðan mannréttindayfirlýsingin var færð í letur. Þótt þar sé kynhneigð ekki tiltekin sérstaklega hefur hún fyrir löngu verið viðurkennd víðast hvar á okkar menningarsvæði sem ógild ástæða mismununar [20] eins og landslög kveða á um.

Flestir vísindamenn eru á einu máli um að kynhneigð sé fólki ásköpuð frá fæðingu. Kristin kirkja skírir þannig samkynhneigða einstaklinga til kristinnar trúar. Þeim er ekki hafnað heldur samþykktir sem fullgildir aðilar að kirkju Krists á jörð þótt ekki sé vitað til hvors kynsins þeir muni hneigjast þegar þeir ná kynþroskaaldri. Við skírn fer prestur t.d. með þennan texta: „Vér þökkum þér það undur sköpunnar þinnar, sem þú hefur leyft oss að reyna og sjá í þessu barni ...“[21] Samkynhneigðir eru m.ö.o. jafnfullgilt „undur sköpunarinnar“ og aðrir menn. Guð er beðinn að veita barninu fyrirheit skírnarinnar og gjöf heilags anda, án þess að nokkur trygging sé fyrir því hvers konar einstaklingur það verði þegar það vex úr grasi. Og jafnvel þótt það helgi síðar líf sitt því að hafna þessum sáttmála treystir kirkjan sér ekki til að ógilda hann. Hún hefur ekki leyfi til þess, hann er heilagt sakramenti.

Hjónaband er ekki heilagt sakramenti samkvæmt lútherskum skilningi. Það er borgaraleg stofnun, lögformleg, opinber gjörð. Hjónavígsla er guðsþjónusta þar sem í nafni Guðs er lýst blessun yfir stofnuninni. „Það er orð Guðs og bænin sem helgar, vígir hjónabandið, heitorðin, ásetninginn“[22], hvorki kynferði né kynlíf hjónanna.

Í því hlýtur að felast hrópandi þversögn að heimila samkynhneigðum fullan aðgang að heilögum sakramentum kirkjunnar, bæði heilagri kvöldmáltíð og skírn, en neita þeim um hjónavígslu á jafnréttisgrundvelli við aðra menn. Ekki síst í ljósi þess að þar er aðeins um að ræða kirkjulega vígslu borgaralegrar stofnunar sem samfélagið hefur gert fullgilda og jafnréttháa öðrum, án tillits til kynferðis hlutaðeigandi einstaklinga.

Hjónavígsla er ekki heilagt sakramenti, heldur Guðs blessun í orði hans og bæn fyrir heitorðum hjóna og ásetningi. Ef kirkjan vill að sönnu „mæta fólki án fordóma hvaða fjölskyldu- og sambúðarform sem það hefur valið sér og veita því sálgæslu og stuðning til að viðhalda sjálfsvirðingu sinni og reisn“[23] er henni því, að mínu mati, engan veginn stætt á því, hvorki siðfræðilega né á neinum kirkjulegum forsendum, að líta á sama tíma á eina tegund hjúskapar sem „annað og meira“ en aðra tegund hans.

---


Heimildaskrá:

Biblían, 2007. Reykjavík.

Handbók íslensku kirkjunnar, 1981. Reykjavík.

Karl Sigurbjörnsson, 2001: Í birtu náðarinnar – Hirðisbréf til íslensu kirkjunnar. Reykjavík, Skálholtsútgáfan.

Primoratz, Igor, 1999: Ethics and sex. London og New York, Routledge.

Sálmabók íslenzku kirkjunnar, 1977. Reykjavík, Kirkjuráð.

Sólveig Anna Bóasdóttir, 2008: Ást, kynlíf og hjónaband. Reykjavík, Salka.

Af netinu:

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. http://www.humanrights.is/mannrettindi-og-island/helstu-samningar/sameinudu-thjodirnar/mannrettindayfirlysing-sth/ (sótt 6. 11. 2009)

Mohl, Allan S, LCSW, PhD, 2009: Religious Fundamentalism and its Impact on the Female Gender. (Erindi flutt á 31. árlegu IPA ráðstefnunni við Fordham háskólann í Lincoln Center í New York og birt vorið 2009 í The Journal of Psychohistory.) http://primal-page.com/mohl.htm (sótt 7. 11. 2009)

Ný dönsk rannsókn vekur athygli: Bestu foreldrar ættleiddra barna eru lesbíur. http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/ny-donsk-rannsokn-vekur-athygli-bestu-foreldrar-aettleiddra-barna-eru-lesbiur (sótt 6. 11. 2009)

Same-sex Behaviour Seen In Nearly All Animals. http://www.sciencedaily.com/releases/2009/06/090616122106.htm (sótt 7. 11. 2009)



[1] Sólveig Anna Bóasdóttir, 2008. S. 143-144.

[2] Karl Sigurbjörnsson, 2001. S. 161.

[3] Sama. S. 161.

[4] It is the choice of the two persons of an unique life-partner which is central to marriage. How two persons relate to each other is not dependent on sex.– Niðurstaða kenninganefndar Sænsku þjóðkirkjunnar 2009.

[7] Primoratz, 1999. S. 111.

[9] Enn eldri heimildir um kynferðilsegt samneyti einstaklinga af sama kyni eru reyndar til. Þannig er Þriðja Mósebók líklega rituð einhvern tímann á tímabilinu 550-400 f. Kr.

[10] ... so perverted a lust ... Primoratz, 1999. S. 112.

[11] „... a vice of unparalleled enormity ...“ Primoratz, 1999. S. 112.

[12] „...woman was created for domestic concerns, but man for political ones, for wars, and the affairs of the law courts. Taking a wife is a remedy for fornication.“ Mohl. http://primal-page.com/mohl.htm (sótt 7. 11. 2009).

[13] „confusedly and absurdly“

[14] Handbók íslensku kirkjunnar, 1981. S. 133-134.

[15] Karl Sigurbjörnsson, 2001. S. 156.

[16] Sama, s. 155.

[17] Sama, s. 156.

[18] Sólveig Anna Bóasdóttir, 2008. S. 78.

[19] Sálmabók íslenzku kirkjunnar, 1977. S. 571.

[20] Sólveig Anna Bóasdóttir, 2008. S. 114.

[21] Handbók íslensku kirkjunnar, 1981. S. 109.

[22] Karl Sigurbjörnsson, 2001. S. 155.

[23] Sama. S. 156.